Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 489  —  244. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um kostnað einstaklinga sem eiga rétt á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna lýtalækninga.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja að einstaklingar sem eiga rétt á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga þurfi ekki að bera fjárhagslegan kostnað vegna þess að samkomulag um gjaldskrá hefur ekki tekist vegna verka lýtalækna?
    Hinn 1. júlí sl. undirrituðu Sjúkratryggingar Íslands (hér eftir SÍ) og Læknafélag Reykjavíkur samkomulag um þjónustu sérgreinalækna. Samningurinn er langtímasamningur til fimm ára og tók að fullu gildi 1. september sl. Frá því að samningurinn tók gildi 1. júlí sl. hafa aukagjöld ekki átt að falla á sjúkratryggða vegna þjónustu sérgreinalækna sem starfa samkvæmt samningnum.
    Verð á umsaminni þjónustu sérgreinalækna er tilgreint í gjaldskrá viðkomandi sérgreinar í samningnum, þ.m.t. kafli sem tekur til lýtalækninga. Tíu lýtalæknar starfa eftir samningnum. Þeir lýtalæknar sem hafa ekki viljað fallast á umsamda gjaldskrá samningsaðila hafa því ekki sótt um aðild að samningnum. Læknafélag Reykjavíkur hefur lagt fram tillögur um breytingar á gjaldskránni sem snúa að læknisverkum lýtalækna. Þær eru nú til umfjöllunar hjá samstarfsnefnd samningsaðila sem almennt skal afgreiða mál innan þriggja mánaða.

     2.      Hver er fjöldi einstaklinga í ofangreindri stöðu það sem af er árinu 2023 og hver er meðalkostnaður sem þeir hafa borið vegna aðgerða og annarrar heilbrigðisþjónustu lýtalækna?
    Fjöldi einstaklinga sem leituðu til lýtalækna fyrstu sex mánuði ársins var 2.719 og heildarkostnaður SÍ 135,5 millj. kr. Fyrir gildistöku samnings voru aukagjöld ákveðin af sérgreinalæknum og því liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um hver aukagjöldin voru hjá lýtalæknum áður en samningar tókust. Eftir 1. júlí er þeim læknum sem starfa á grundvelli samningsins óheimilt að innheimta aukagjöld. Lýtalæknar sem starfa utan samnings eru óbundnir af honum og hver og einn þeirra getur sjálfur ákveðið gjaldskrána sem hann starfar eftir. Þar af leiðandi liggja ekki fyrir upplýsingar um þann kostnað sem einstaklingar þurfa að bera af þjónustu lýtalækna utan samnings.

     3.      Stendur til að endurgreiða einstaklingum útlagðan kostnað vegna þessa? Ef ekki, hvers vegna?
    Greiðsluþátttaka SÍ í kostnaði vegna þjónustu lýtalækna einskorðast við lækna sem eru aðilar að samningi SÍ við Læknafélag Reykjavíkur og umsamda gjaldskrá samningsaðila. Ekki stendur til að gera breytingu á því fyrirkomulagi.
    Í 3. mgr. 6. gr. samningsins segir að lækni sé óheimilt að krefja viðkomandi sjúkratryggðan einstakling um hærra gjald fyrir verkið en umsamið er samkvæmt gjaldskrá viðkomandi sérgreinar og Sjúkratrygginga. Líkt og fyrr segir er samstarfsnefnd Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga með til skoðunar tillögur um breytingar á gjaldskrá sem snúa að einstökum verkum lýtalækna.